„Staðan er í rauninni skelfileg,“ segir Árni Jóhannsson, forstöðumaður mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, um stöðu verktakafyrirtækja, ekki síst vegavinnuverktaka.
Fá verk hafa verið boðin út hjá Vegagerðinni á þessu ári og langstærstur hluti þeirra verkefna, sem þegar eru í gangi, var boðinn út á síðasta ári eða árið þar áður.
Vegagerðin hefur um sex milljarða króna til ráðstöfunar í nýframkvæmdir á þessu ári og þar af er eftir að ráðstafa rúmum milljarði króna til áramóta. Fá útboð eru framundan og gagnrýnir Einar K. Guðfinnsson þingmaður að það skuli ekki vera hægt að koma útboðunum af stað sem fyrst, ekki sé um framtaksleysi Vegagerðarinnar að ræða heldur hljóti að liggja að baki einhver pólitísk stefnumörkun.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að verktakar bítast um þau fáu verk sem bjóðast og undirboð eru ríkjandi þar sem lægstu tilboð eru langt undir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Árni segir rýran verkefnalista Vegagerðarinnar ekki auka mönnum bjartsýni og heldur ekki yfirlýsingar innanríkisráðherra um að vegaframkvæmdir utan ríkisreiknings komi ekki til greina.