Formaður LÍÚ, Adolf Guðmundsson, segir að OECD hafi í meginatriðum svipaða sýn á íslenskan sjávarútveg og LÍÚ. Hann segist vonast til þess að ríkisstjórnin kynni sér skýrslu OECD vel og taki mark á henni. Þetta kemur fram á vef LÍÚ.
„OECD hefur í megindráttum svipaða sýn á íslenskan sjávarútveg og LÍÚ. Ég vona bara að ríkisstjórnin kynni sér skýrslu stofnunarinnar vel og taki mark á henni. Ég legg til að nú verið farið í það að skrifa nýtt kvótafrumvarp með aðkomu allra hagsmunaaðila," segir Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ.
Samkvæmt skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, er hvatt til þess að skilvirkni núverandi stjórnkerfis fiskveiða á Íslandi verði varðveitt. Í skýrslunni kemur fram að kvótakerfið hafi reynst vel og að ríkur hvati sé í því til ábyrgrar fiskveiðistjórnunar. Hins vegar standi kerfið nú frammi fyrir ógn vegna „meints óréttlætis" við úthlutun aflaheimilda við upphaf kvótakerfisins. OECD bendir á að flestir núverandi handhafar aflaheimilda hafi keypt þær á frjálsum markaði, segir á vef LÍÚ.
„Það er ánægjulegt að OECD sjái nauðsyn þess að sjávarútvegurinn hér á landi sé rekinn á hagkvæman hátt og mæli með því að kerfinu verði ekki breytt. Sífellt fleiri þjóðir líta til okkar í tengslum við uppbyggingu sjávarútvegsins og því er sérkennilegt að sjá það að einmitt þessa dagana vilja íslensk stjórnvöld gjörbreyta kerfinu. Allar athugasemdir sem komið hafa fram í tengslum við kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar eru á sama veg, enginn virðist mæla með frumvarpinu. Nú bætist þessi virta stofnun í hópinn," segir Adolf.