Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir að það væri „einstaklega frekjulegt“ af stjórnvöldum ef þau gripu til þess ráðs að setja lög á kjaradeilu þeirra við Icelandair.
„Mér fyndist það mjög sérkennilegt í ljósi þess að ekki er um neina einokunarstarfsemi að ræða. Það er nægilegt magn af flugferðum til og frá landinu, það er verið að tala um að eitt og eitt flug falli niður, og mér fyndist það einstaklega frekjulegt svo ekki sé meira sagt að fara út í slíkar aðgerðir,“ segir Kjartan.
Aðspurður um viðbrögð hans við gagnrýni Samtaka ferðaþjónustunnar frá í dag, þar sem kom meðal annars fram að yfirvinnubann flugmanna sem tók gildi klukkan tvö í dag myndi stórskaða ferðaþjónustuna, segir Kjartan að hann vísi henni til heimahúsanna.
„Við erum búnir að reyna að semja um nýjan kjarasamning síðan í janúar fyrir daufum eyrum. Það er fyrst núna sem menn hafa tekið við sér þegar farið er út í svona leiðindaaðgerðir.“
Fulltrúar flugmanna og Icelandair funda enn i húsnæði ríkissáttasemjara og er búist við að fundurinn standi fram á kvöldið samkvæmt heimildum mbl.is þó ekkert hafi verið fastákveðið í þeim efnum.