Forsetinn á ferð og flugi

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson, dvaldi í rúman sólarhring í Seattle á leið sinni frá Alaska og tók þar þátt í málþingi, fundum og viðræðum um margvísleg tækifæri til aukinnar samvinnu milli Íslands og fyrirtækja, háskóla og rannsóknarstofnana á Seattle svæðinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsetaembættinu.

„Hvarvetna kom fram mikill áhugi á að efla samvinnu við Íslendinga á fjölmörgum sviðum. Forseti flutti setningarræðu á málþingi sem sótt var af forráðamönnum ýmissa fyrirtækja í Seattle, m.a. frá Microsoft, American Seafood, Amazon, og áhrifafólki í miðlun tónlistar, hönnunar og menningar sem og ýmum sem tekið hafa þátt í því að byggja upp nýjan markað fyrir Icelandair og íslenska ferðaþjónustu á vesturströnd Bandaríkjanna," segir ennfremur í fréttatilkynningunni.

Forseti tók einnig þátt í pallborðsumræðum ásamt Hlyni Guðjónssyni viðskiptafulltrúa Íslands í Bandaríkjunum og fleirum. Þá tók forseti þátt ásamt Jóni Atla Benediktssyni prófessor og aðstoðarrektor við Háskóla Íslands í viðræðufundi með rektor og deildarforsetum við Washington háskólann.

Á fundinum var rætt um að auka samstarf á sviði kennslu og vísindarannsókna, með sérstakri áherslu á verkfræði, náttúruvísindi, norræna menningu að fornu og nýju sem og á sviði viðskipta- og hagfræði.

„Forseti heimsótti Bill and Melinda Gates Foundation sem á örfáum árum hefur orðið ein öflugasta góðgerðarstofnun veraldar. Áherslur hennar beinast að því að styrkja baráttu gegn sjúkdómum í þróunarlöndum og efla þar arðbæran landbúnað sem og að berjast gegn fátækt innan Bandaríkjanna meðal annars með því að auðvelda börnum og unglingum úr fátækrahverfum bandarískra stórborga að ljúka skólagöngu sinni og leggja grundvöll að farsælu lífi.

Rætt var um hvernig þróun íslensks heilbrigðiskerfis á síðustu öld og nýting jarðhita til gróðurhúsaræktunar og þurrkunar matvæla gæti orðið forvitnileg viðbót við starfsemi stofnunarinnar.

Þá tók forseti þátt í viðræðufundi um kynningu á íslenskri og norrænni hönnun (Nordic Fashion Biennale) og Reykjavik Calling tónlistarhátíðinni sem efnt verður til í Seattle í haust, heimsótti bækistöðvar Marels, hitti marga úr hinni fjölmennu sveit Íslendinga sem búa á Seattle svæðinu og snæddi hádegisverð með forystumönnum Íslendingafélagsins," segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert