Kjaradeila flugmanna óleyst

mbl.is/GSH

Samningafundi Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair var að ljúka nú rétt í þessu í húsnæði ríkissáttasemjara. Samkvæmt upplýsingum þaðan er ekki búið að ná lendingu í deilunni.

Fundur hefur verið boðaður að nýju klukkan ellefu í fyrramálið, en að sögn var ekki mikið að frétta eftir fundinn í kvöld.

Aflýsa þarf sex flugferðum á sunnudag vegna yfirvinnubanns flugmannanna, sem hófst klukkan tvö í dag. Samkvæmt yfirlýsingu frá Icelandair, sem send var út í dag, mun yfirvinnubannið hafa áhrif á flugferðir um 1.500 flugfarþega á sunnudag og mánudag, ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.

Kjartan Jónsson, formaður FÍA, sagði eftir samningafund nú í kvöld, að lítið hefði hreyfst á fundinum en þó hefðu viðræður mjakast áfram.

Í deilunni ber enn mest á milli í launamálum og svo í málum er varða starfsöryggi flugmanna, en samninganefnd FÍA vill fá úrbætur á þeim sveiflum í rekstri Icelandair sem orsaka það að hluti félagsmanna missir vinnuna alltaf hluta úr ári. Segir Kjartan tíma til kominn að flugmenn, sem hafi menntað sig til starfsins fyrir á annan tug milljóna króna, geti farið að reiða sig á það starf allt árið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert