Von er á bandaríska skólaskipinu USCGC Eagle WIX-327 til Reykjavíkur á þriðjudag.
Skipið verður opið almenningi við Miðbakka þriðjudaginn 28. júní kl. 13:00-19:00, miðvikudaginn 29. júní kl. 10:00-17:00 og fimmtudaginn 30. júní frá kl. 10:00-19:00.
Skólaskipið Eagle tilheyrir liðsforingjaskóla/háskóla bandarísku strandgæslunnar, US Coast Guard Academy og þá um leið bandarísku strandgæslunni. US Coast Guard Academy er 4 ára heilsársskóli þar sem strandgæslan menntar verðandi yfirmenn stofnunarinnar. Á veturna er háskólanám en á sumrin sigla nemendur hálft sumarið á Eagle og hálft sumarið á hefðbundnum varðskipum.
Hannes Þ. Hafstein fyrrum framkvæmdastjóri Slysavarnarfélags Íslands sigldi með skipinu árið 1949 þegar hann var í tveggja ára starfsþjálfun hjá bandarísku strandgæslunni.
Þegar hann varð starfsmaður SVFÍ og síðar framkvæmdastjóri nýtti hann sér m.a. reynslu sína frá þeim árum við skipulagningu björgunarsveitarstarfs og félagsstarfs samtakanna. Einnig urðu sambönd hans við einstaklinga innan strandgæslunnar til þess að margir félagar SVFÍ fengu tækifæri til að fara í starfsþjálfun og sækja námskeið hjá stofnuninni í gegnum tíðina. Einnig sigldi Ásgrímur L. Ásgrímsson, núverandi yfirmaður stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og starfandi framkvæmdastjóri Aðgerðasviðs fjögur sumur með skipinu er hann var liðsforingjaefni í US Coast Guard Academy frá 1983-1987, að því er fram kemur í tilkynningu.
Skipið á sér mikla sögu en það var smíðað, ásamt tveimur systurskipum, af skipasmíðastöð Blohm and Voss í Hamborg árið 1936. Voru þau notuð sem skólaskip fyrir þýska sjóherinn en nýtt sem flutningaskip meðan á stríðinu stóð og lentu þá í ýmsum átökum. Voru þau öll tekin upp í stríðslaun að styrjöld lokinni. Eagle, sem hét Horst Wessel, fór til bandarísku Strandgæslunnar, eitt skipanna fór til Rússlands en fórst nokkrum árum síðar. Þriðja skipið varð eign Brasilíu. Þaðan var skipið selt til Portúgal og siglir enn sem skólaskip fyrir portúgalska flotann og heitir Sagres.
Skip með nafninu Eagle hafa þjónað í bandarísku strandgæslunni frá stofnun hennar fyrir 221 ári síðan, þ.e. 1790. Frá því fyrir aldamótin 1900 hafa skólaskipin hjá Strandgæslunni borið þetta nafn.