Samtök ferðaþjónustunnar segja niðurfelling fluga vegna yfirvinnubanns flugmanna stórskaða ferðaþjónustuna á háannatíma. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu í dag. Yfirvinnubannið tók gildi klukkan tvö í dag en kjaraviðræður hafa staðið yfir undanfarna daga á milli flugmanna og Icelandair. Hefur flugfélagið fellt niður sex flug á sunnudag vegna yfirvinnubannsins.
Fram kemur í tilkynningunni að samkvæmt upplýsingum frá ferðaþjónustufyrirtækjum hafi víða hægt á bókunum síðustu daga „en nú þegar flug verða felld niður er viðbúið að erlendar ferðaskrifstofur muni afbóka hópa og senda þá annað. Fyrirtæki um land allt bíða eftir að taka á móti þeim ferðamönnum og munu því verða fyrir miklu tjóni ef þeir komast ekki á staðinn.“
„Hótanir um truflanir á flugi eru ekkert innanlandsmál,“ segir ennfremur í tilkynningunni „slíkar fréttir berast víða um heim og erlendar ferðaskrifstofur taka ekki áhættu á að senda hópa á svæði þar sem engir aðrir samgöngumöguleikar eru til staðar.“
Bent er á að þegar sé búið að semja við um 85% launþega á almennum vinnumarkaði án verkfallsaðgerða „en verkfallsvopnið var ekki lögleitt til þess að þjóna hálaunastéttum í einokunaraðstöðu.“
„Það er búið að ganga mikið á í íslenskri ferðaþjónustu í vor. Mannfólkið getur ekki gert við eldgosi og kulda en þarna er hálaunahópur að stofna til tekjumissis fjölda fyrirtækja á landinu,“ segir í tilkynningunni að endingu.