Fundi slitið

mbl.is/Frikki

Samningafundi Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair hefur verið slitið, en fundað var í húsnæði ríkissáttasemjara. Magnús Jónsson aðstoðarsáttasemjari segir í samtali við mbl.is of langt bil sé á milli samningamanna.

„Menn eru með það langt bil á milli sín, að ég mat það þannig að það væri tilgangslaust að halda áfram í dag,“ segir Magnús sem ákvað að slíta fundinum.

Fundur í deilunni hófst á ný kl. 11 í morgun eftir árangurslausar viðræður í gær. Fundinum í dag var svo slitið kl. 14:30.

„Það var ekki ákveðið neitt með framhaldið,“ segir Magnús. Menn muni vera í sambandi þegar einhver tími verði liðinn.

Breytist eitthvað muni menn setjast aftur niður að samningaborðinu með litlum fyrirvara ef því sé að skipta.

Aflýsa þarf sex flugferðum á morgun vegna yfirvinnubanns flugmannanna, sem hófst klukkan tvö í gær. Samkvæmt yfirlýsingu frá Icelandair, sem send var út í gær, mun yfirvinnubannið hafa áhrif á flugferðir um 1.500 flugfarþega á sunnudag og mánudag, ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert