Engir gildandi samningar eru á milli Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðilækna.
Það hefur einkum áhrif á tvo þætti: Í fyrsta lagi er greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga nú miðuð við úreltar kostnaðartölur en þjónusta sérfræðilækna hefur hækkað sem nemur 4 til 6% að meðaltali frá því í apríl. Mismunurinn lendir alfarið á sjúklingunum.
Í öðru lagi ber læknunum nú engin skylda til að senda reikningana til Sjúkratrygginga heldur þurfa sjúklingarnir oft og tíðum að leggja út fyrir öllum kostnaði.
Dæmi er um að sjúklingar hafi þurft að borga tugi þúsunda fyrir læknisverk og bíða svo í sex vikur eftir að fá hluta kostnaðarins til baka.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að þótt samningar við sérfræðilækna séu ekki lengur í gildi eigi sjúklingar þó áfram rétt á tryggingavernd í samræmi við lög.