Lítið hefur ræst úr atvinnuástandi meðal iðnaðarmanna að undanförnu, nema síður sé. Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, bendir á að mjög stór hópur iðnaðarmanna hafi misst vinnuna eftir að framkvæmdunum við Hörpu lauk að mestu leyti í vor.
Þar voru á bilinu 400 til 500 manns við störf en í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segist Þorbjörn hafa fengið þær upplýsingar hjá verktakafyrirtækinu ÍAV að mjög fá önnur störf virðist vera í boði.
Ljóst er að fjöldi þeirra er án vinnu í dag þótt ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um hversu margir þeir eru.
Verklokin við Hörpu eru stærsta breytingin sem hefur orðið á vinnumarkaðinum að undanförnu. „Það er mjög dauft yfir öllu. Það eru að vísu framkvæmdir í fullum gangi við álverið í Straumsvík og framkvæmdirnar við Búðarhálsvirkjun eru að komast í fullan gang en þar er aðeins um störf fyrir einhverja tugi manna að ræða,“ segir Þorbjörn.