Ekki rætt saman í flugdeilunni

mbl.is/GSH

Engir frekari fundir hafa verið boðaðir í kjaradeilu flugmanna við Icelandair. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, hefur ekkert heyrst frá sáttasemjara eða frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og ekkert er vitað um hvenær verður næst sest að samningaborðinu.

Í tilkynningu frá Icelandair nú rétt fyrir hádegið segir að sex flug hafi þurft að fella niður nú á aðfararnótt mánudags til og frá Gautaborg, Kaupmannahöfn og París. Í tilkynningunni segir að ekki séu fyrirséðar frekari truflanir á flugi Icelandair næstu dagana vegna verkfallsins, en farþegar eru hvattir til þess að fylgjast vel með.

Flugfélaginu ber skylda til að tilkynna um niðurfellingu skipulagðra flugferða sólarhring fyrir áætlaða brottför og því getur vel verið að þegar þar að kemur verði tilkynnt um frekari niðurfellingar.

Hins vegar er það ekki svo að allt flug Icelandair sé í uppnámi. Í tilkynningunni segir að á vegum Icelandair séu flogin um sextíu flug á sólarhring til og frá landinu í áætlunarflugi.

„Mikið álag er á þjónustuveri Icelandair en reynt er eftir fremsta megni reyna að leysa úr þeim vanda sem niðurfelling flugs skapar viðskiptavinum m.a. með því að flytja þá yfir á flug annarra flugfélaga, einnig að færa farþega á önnur flug Icelandair til og frá þessum áfangastöðum, eða breyta farmiðum með öðrum hætti. Þeir sem þurfa að hætta við ferð sína munu fá endurgreitt,“ segir í tilkynningunni frá félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert