Fyrsta sumarferð Öskjurútunnar á vegum Gísla Rafns Jónssonar á þessu ári var farin sl. föstudag. Það var sumarið 1980 sem Jón Árni faðir Gísla hóf þessar ferðir sem nú eru að hefja sitt 32 starfsár.
Mjög mikill snjór reyndist í hrauninu þegar kemur inn fyrir Dreka og leiðin ófær bílum.
Um helgina hafa menn með snjóruðningstæki á vegum Vegagerðarinnar unnið að því að opna leiðina en snjórinn er þungur og hægt hefur miðað.
Að sögn Gísla Rafns var snjómokstri hætt í dag þegar komið var að svonefndu Ytra horni og er þá eftir nær þriggja tíma gangur inn að vatni.
Gísli segir að hann muni samt sem áður hefja daglegar ferðir í Öskju á morgun. Hann muni hafa meðferðis snjóbíl sinn inneftir sem hann hefur þurft að gera nokkur köld sumur. Þannig ferjar hann farþega inn að bílastæðinu og styttir gönguna um helming, en lengra er ekki heimilt að aka vélknunum farartækjum. Spölinn þaðan inn að Víti verða allir að ganga og er það allt ganga á harðfenni nú segir Gísli Rafn.