Hinar eiginlegu viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) hefjast á morgun en frá því að umsókn um aðild var send sumarið 2009 hefur ferlið sem þá hófst gengið út á ýmis konar undirbúning fyrir viðræðurnar.
Svokallaðri rýnivinnu lauk 20. júní síðastliðinn en tilgangur hennar var að bera saman löggjöf Íslands og ESB í því skyni að komast að því hvað bæri á milli í þeim efnum og hvað þyrfti að semja um.
Vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur talsvert af löggjöf ESB verið innleidd hér á landi á liðnum árum. Hins vegar standa stórir málaflokkar út af borðinu í þeim efnum eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, utanríkis- og varnarmál, tollamál og peningamál svo nokkrir séu nefndir.
Fyrstu málaflokkarnir sem teknir verða fyrir falla allir undir EES-samninginn og er ekki búist við öðru en að viðræður um þá gangi hratt fyrir sig.