59 flugmönnum sagt upp störfum

mbl.is/Frikki

Samkvæmt heimildum mbl.is hafa 59 flugmenn fengið uppsagnarbréf í dag frá Icelandair og 37 flugstjórum ennfremur sagt upp stöðu sinni sem þýðir að þeir verða aðstoðarflugmenn.

Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, er hér um að ræða flugmenn sem ráðnir voru til fyrirtækisins í vor yfir sumartímann á þessum forsendum. Um árlegt fyrirkomulag sé að ræða sem helgast af því að meira sé að gera yfir sumartímann en á öðrum tímum ársins. Það sama eigi við um flugstjórana sem verða aðstoðarflugmenn í lok sumars.

„Þetta er einfaldlega sá veruleiki sem við þurfum að búa við, að vera sagt upp alltaf síðsumars og síðan boðin aftur vinna að vori. Þetta er erfitt þegar þetta gengur svona í jafn mörg ár og raun ber vitni,“ segir Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Hann segir að sátt hafi verið um það hér áður að flugmenn væru sumarstarfsmenn í 2-3 ár en núna séu menn að detta út yfir veturinn sem hafi starfað hjá Icelandair með þessum hætti jafnvel í 6-8 ár. „Menn sjá enga framtíð í þessu svona,“ segir Kjartan.

Hann segir að yfirstandandi kjaraviðræður flugmanna og Icelandair snúist meðal annars um þessa árstíðarbundnu sveiflu. „Flugmenn gera sér vitanlega grein fyrir því að það er sveifla í þessum bransa en við teljum einfaldlega að hún sé alltof mikil og menn þurfi að búa við þetta fyrirkomulag alltof lengi. Þetta erum við að reyna að laga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert