Forsvarsmenn Hlaðbæjar-Colas, þjónustufyrirtækis á sviði malbikunar, íhuga nú að kæra framferði Malbikunarstöðvarinnar Höfða til Samkeppniseftirlitsins. 99% hlutafjár malbikunarstöðvarinnar er í eigu Reykjavíkurborgar, en fyrirtækið var stofnað árið 1996.
Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hlaðbæjar-Colas, segir að malbiksmarkaðurinn hafi skroppið saman frá árinu 2008 um sem nemur á bilinu 75-80%. „Við höfum skoðað að ræða við Samkeppniseftirlitið, en það fyrirtæki sem gengur einna harðast fram í undirboðum á þessum markaði er hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, mjög öflugt og sterkt hlutafélag með engar skuldir. Hlaðbær-Colas er stórt félag og því kveinkum við okkur síðast, en þeir eru að ganga frá smærri fyrirtækjum á þessum markaði,“ segir Sigþór í samtali í Morgunblaðinu í dag.
Hann nefnir dæmi um að Malbikunarstöðin Höfði bjóði verð í útboðum, sem er allt að 20% undir næstlægsta boði.