Gera athugasemdir við ummæli ráðherra

Umferð um Suðurlandsveg.
Umferð um Suðurlandsveg. mbl.is/Ómar

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gerir athugasemdir við  ýmis ummæli Steingríms J. Sigfússonar um samgöngumál í Kastljósi RÚV í síðustu viku og útúrsnúningum hans um skatta af umferð. Þetta kemur fram á vef FÍB.

 Meðal annars sagði fjármálaráðherra: „Hinir mörkuðu tekjustofnar Vegagerðarinnar duga ekki til að standa undir þeim samgönguframkvæmdum sem hér hafa verið undanfarin ár. Við höfum þurft að millifæra peninga úr almennum skatttekjum ríkisins yfir í samgöngumálin vegna þess að mörkuðu tekjustofnarnir hrökkva ekki til.” Þetta er ekki rétt.

Ríkissjóður mun hafa hátt í 50 milljarða króna í tekjur af sköttum á umferð á þessu ári. Um 16 milljarðar fara til Vegagerðarinnar, þar af um 6 milljarðar til nýframkvæmda. Hitt fer í ríkissjóð. Umferðin stendur semsé ekki aðeins undir öllum rekstri Vegagerðarinnar, heldur meira en þrisvar sinnum þá upphæð. Þegar fjármálaráðherra segist þurfa að millifæra peninga úr “almennum skatttekjum ríkisins” yfir í samgöngumálin, þá eru það útúrsnúningar til að fá fólk til að halda að umferðin borgi ekki eigin kostnað.

„Samkvæmt útreikningum FÍB mundi lækkun á eldsneytisgjöldum í raun skila svipuðum eða meiri tekjum í ríkissjóð – ekki minni.

Einfaldur samanburður á tekjum ríkissjóðs af föstum bensínsköttum sýnir að hækkun skilar minni tekjum en áður vegna þess hversu mikið hefur dregið úr umferð (um 9% frá 2009) og þarmeð bensínsölu.

Vissulega hefur hærra innkaupsverð á eldsneyti og virðisaukaskattur einnig áhrif til hækkunar á bensíndropanum. En það hefði munað miklu ef eldsneyti hefði aðeins hækkað sem nemur innkaupsverði. Líklegast er að mjög lítið hefði dregið úr umferð og ríkið því haldið tekjum sínum óbreyttum.

Staðan í dag er þannig að tekjur ríkisins af samgöngum hafa ekkert hækkað þrátt fyrir hækkun skatta, vegna minnkandi umferðar. Minni umferð hefur hins vegar dregið stórlega úr tekjunum sem samgöngur skapa. Þetta á ekki síst við um landsbyggðina og ferðaþjónustuna. Þar með fær ríkið ennþá minni tekjur af sköttum á einstaklinga og atvinnulífið. Heildarútkoman er ekki aðeins tap fyrir ríkissjóð, heldur ekki síður fyrir þá sem byggja afkomu sína á umferð fólks," segir á vef FÍB.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert