Harma að lokun sé ekki virt

mbl.is/Jónas

Umhverfisstofnun harmar að lokun Dyrhólaeyjar hafi ekki verið virt nú í mánuðinum en stofnuninni beri að vernda fuglalíf á svæðinu. Segir á vef stofnunarinnar að tilteknir einstaklingar hafi ekki fylgt eftir fyrirmælum og og skemmdir ítrekað unnar á hliðum, skiltum og búnaði.

„Nú í júní voru unnin skemmdarverk í friðlandinu Dyrhólaey þar sem hlið og skilti sem voru til þess að tryggja lokun svæðisins voru ítrekað fjarlægð. Tilteknir einstaklingar hafa ekki fylgt eftir þeim fyrirmælum sem gefin hafa verið til verndar fuglalífi í Dyrhólaey. Umhverfisstofnun ber skylda til þess að vernda fuglalíf í eynni og mun ekki bregðast því. Umhverfisstofnun harmar að lokun Dyrhólaeyjar hafi ekki verið virt og skemmdir ítrekað unnar á hliðum, skiltum og búnaði. Stofnunin minnir á að heimilt er að kæra ákvörðun hennar um lokun til umhverfisráðuneytisins.

Skiptar skoðanir hafa verið um lokun friðlandsins Dyrhólaeyjar, þar sem sumir hagsmunaðilar hafa ekki viljað loka friðlandinu en aðrir viljað hafa svæðið lokað yfir varptímann. Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun í byrjun maí ár hvert um takmörkun á umferð um friðlandið Dyrhólaey til verndunar fuglum. Ákvörðunin er byggð á faglegu mati fuglafræðings og samráði við hagsmunaaðila á svæðinu. Ástæða þess að Dyrhólaey er friðuð er til verndunar fuglalífi," segir á vef Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnunar fagnar ráðningu landvarðar fyrir friðlandið Dyrhólaey, þar sem sveitarfélagið bauðst til þess að kosta stöðuna. Telur stofnunin það til bóta að á svæðinu sé landvörður sem hafi það hlutverk að fylgjast með fuglalífi og friðlandinu.

Ákveðið var í maí á þessu ári að loka friðlandinu fyrir allri umferð frá 5. maí til 8. júní. Sú ákvörðun var framlengd þann 10. júní til kl. 08.00 þann 14. júní en þá var opnað fyrir umferð upp á Háey en Lágey áfram lokuð til 25. júní en þá er öll eyjan opin.

Sjófuglavarp í Dyrhólaey hefur minnkað undanfarin ár m.a. vegna skorts á fæðu í hafi sem hefur leitt til almennrar fækkunar í stofnum.

„Hins vegar eru uppi mismunandi sjónarmið hvað varðar verndun og nýtingu svæðisins, þar sem togast á hagsmunir m.a. ferðaþjónustu og fuglavernd og -nýting. Hlutverk Umhverfisstofnunar í þessu máli snýr ekki að ferðaþjónustu eða nýtingu æðarfugls heldur því að tryggja verndun alls fuglalífs á svæðinu," segir á vef Umhverfisstofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert