Umferðarslys voru meðal umræðuefna á fundi norrænna velferðarráðherra í síðustu viku. Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, sagði í ræðu sinni á fundinum að umferðarslys séu ein höfuðorsök meiðsla, sér í lagi hjá ungu fólki.
Hann sagði að í tengslum við alheimsátak Sameinuðu þjóðanna gegn umferðarslysum hefði Ísland, eins og önnur lönd, skuldbundið sig til að gera ráðstafanir sem leiða til fækkunar umferðarslysa.
Ríkisstjórn Íslands hefur gert ýmsar ráðstafanir í tengslum við umferðarátakið, sagði ráðherra. Ein þeirra er að styðja störf Mænuskaðastofnunar Íslands, en tæpur helmingur þess fólks sem hlýtur skaða á mænu og lamast vegna slysa, hlýtur skaðann í umferðarslysum.
Í ræðu ráðherra kom einnig fram að Ísland hefði lagt fram tillögu hjá Norrænu ráðherranefndinni þess efnis að ráðið kæmi á fót starfshópi lækna og vísindamanna sem hefði það hlutverk að skoða útgefið efni sem tengist rannsóknum á mænunni.
Auður Guðjónsdóttir stjórnarformaður Mænuskaðastofnunar Íslands segir að með ræðu sinni sé velferðarráðherra m.a. að framfylgja samþykkt um mænuskaða sem forsætisráðherra lagði fyrir ríkisstjórn í mars sl. og fjallar um að Ísland taki að sér að vekja athygli á mænuskaða á alþjóðavísu ásamt öðru.
Hún segir að mjög erfiðlega gangi að þróa meðferð við mænuskaða í átt að lækningu og bindur miklar vonir við að tillaga Íslandsdeildar Norðurlandaráðs til norrænu ráðherranefndarinnar verði samþykkt á þingi Norðurlandaráðs í nóvember nk.
„Verði starfshópnum komið á fót muni verða lagður grunnur að skipulagðri leit að lækningu á mænuskaða með stuðningi Norðurlandaráðs og muni það ekki einungis gagnast mænuskaða heldur öllu miðtaugakerfinu," segir Auður.
Hún segir að Siv Friðleifsdóttir alþingismaður og formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs hafi borið tillöguna upp á fundi velferðarnefndar sem haldinn var í tengslum við Norðurlandaþingið í nóvember 2010 og að í janúar 2011 hafi velferðarnefnd samþykkt tillöguna.
„Nú ríður á að íslensku þingmennirnir fylgi málinu stíft eftir og hafi það í gegn á sjálfu Norðurlandaþinginu”, segir Auður.