Sáttafundi milli Icelandair og Félags íslenskra atvinnuflugmanna var slitið á laugardag án þess að boðaður væri nýr fundur. Í því felast skýr skilaboð um að mikið beri á milli.
Einhverjar þreifingar voru í gær á milli manna en enginn fundur var ákveðinn. Yfirvinnubann flugmanna hefur þegar valdið því að um tíu flug hafa fallið niður. Mikil reiði er á meðal fólks í ferðamannaþjónustunni yfir aðgerðum flugmanna.
„Við höfum meiri áhyggjur af þessu en eldgosum,“ segir Bergþór Karlsson hjá Bílaleigu Akureyrar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. „Svo eru þeir að tala um atvinnuöryggi sitt en ógna atvinnuöryggi okkar í ferðamannabransanum um allt land,“ segir Bergþór.