„Fari svo að óbreyttu stjórnarsamstarfi að samningur takist milli milli
Íslands og Evrópusambandsins kemst VG ekki undan því að bera á honum
fulla pólitíska ábyrgð,“ segir Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra og áhrifamaður innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í pistli á bloggsíðu Vinstrivaktarinnar gegn ESB.
Hjörleifur segir að að óbreyttri stefnu VG í Evrópumálum, þ.e. að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB, sé það „vart á annarra færi en lækna sem þekkja vel til geðklofa“ að útskýra hvernig flokkurinn geti borið ábyrgð á mögulegum aðildarsamningi við sambandið.
Hann segir að nú reyni á VG fyrir alvöru þar sem ekki verði hjá því komist „að taka afstöðu lið fyrir lið“ á meðan á samningaviðræðunum við ESB standi og bendir á að mótun samningsmarkmiða í einstökum málaflokkum í viðræðunum sé pólitískt viðfangsefni og þar hljóti ríkisstjórnarflokkarnir og einstök ráðuneyti að koma að málum á hverju stigi viðræðnanna.
„Svigrúm VG til undansláttar frá eigin samþykktum og forskrift utanríkismálanefndar Alþingis er ekki til staðar. Því verður að teljast afar ólíklegt að til verði á næstu árum aðildarsamningur Íslands og ESB,“ segir Hjörleifur.
Pistill Hjörleifs Guttormssonar