Skemmtiferðaskipið AIDAluna átti að leggjast að Skarfabakka í kvöld til að taka á móti farþegum sem voru að koma til landsins með flugi. Vegna hvassviðris gat skipið ekki lagst að og senda þurfti 52 farþega út að skipinu með hvalaskoðunarskipinu Hafsúlunni.
AIDAluna er um 69 þúsund tonn að stærð og 255 metra langt. Það hefur verið tíður gestur hér á landi og er með stærri skemmtiferðaskipum sem hingað koma.
Samkvæmt upplýsingum frá hafnsöguverði var vindstyrkur á sundunum bláu allt að 28 metrar á sekúndu undir kvöld og gerist það ekki oft á þessum árstíma að skemmtiferðaskipin komist ekki að bryggju sökum hvassviðris. Þó gerðist það a.m.k. einu sinni sl. haust.