Michael Porter, prófessor við Harvard Business School, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld, að Íslendingar væru of varkárir við að nýta þau tækifæri, sem fælust í jarðvarma og sérþekkingu þjóðarinnar nýtingu slíkrar orku.
„Það þyrfti að ríkja meiri frumkvöðulsandi, meiri sókndirfska, meiri áhættusækni," sagði Porter í viðtali við Þóru Arnórsdóttur í Kastljósinu. Hann sagði að í stórum málum ríkti áhættufælni, allt væri þungt í vöfum og pólitískt. „Það vantar sókndirfsku til að koma málum áfram," sagði hann.
Porter var heiðursgestur á fundi, sem haldinn var í Reykjavík í dag um jarðvarma. Hann sagði í viðtalinu, að helsta forskot Íslendinga á sviði jarðvarmanýtingu væri, að þeir hefðu unnið lengi á þessu sviði og stór hluti orkuneyslu á Íslandi kæmi úr þessum orkugjafa.
Hann sagði, að auðlindirnar sjálfar gætu verið í eigu almennings á Íslandi en mörg dæmi væru um að í heiminum, að einkafyrirtæki fengju rétt til að nýta slíkar auðlindir. Sagðist Porter vera talsmaður fjölbreyttara samstarfs þar sem bæði ríkis- og einkafélög nýttu auðlindina á grundvelli skýrra reglna.
„Hlutirnir ganga of hægt á Íslandi um þessar mundir," sagði Porter og bætti við að hægagangurinn væri sársaukafullur og skapi hættu á að Íslendingar tapi því forskoti, sem þeir hafa í þekkingu á jarðvarmanýtingu.
„Þetta er stærsta tækifæri sem sem hægt er að ímynda sér. Þetta er flóðbylgja tækifæra en Íslendingar eru enn að rökræða og deila og hlutirnir ganga allt of hægt," sagði hann.
Porter sagði að jarðvarmi væri raunveruleg auðlind á Íslandi og hana væri ekki hægt að taka af Íslendingum. Enginn vafi léki á að eignarhaldið eigi að vera hjá þjóðinni. En verkefni á sviði jarðvarma gætu haft gríðarleg áhrif á íslenska hagkerfið.
„Ég held að hér ríki of mikil svartsýni. Hún er að hluta vegna viðbragða við gríðarlega niðurdrepandi niðursveiflu í efnahagslífinu sem fæstir Íslendingar bera ábyrgð á. Erlendar fjárfestingar, sem snúast um hátækni, vel launuð störf og þátttöku landsins í hagkerfi heimsins á mikilvægu sviði eru gríðarlega mikilvægar. En ég held að þjóðin tengi með einhverjum hætti erlendar fjárfestingar við fjármálahrunið. En vandamálið var ekki að erlend fyrirtæki kæmu til Ísland og gerðu þar eitthvað af sér," sagði Porter.
Hann sagðist vilja sjá Íslendinga nýta jarðvarma sem orkugjafa til að skapa meiri verðmæti fyrir landið og einnig að selja þekkinguna.