Mælt með kynjakvóta

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir.

Evr­ópuráðsþingið samþykkti, á fundi sín­um í Strass­borg í síðustu viku, álykt­un þar sem aðild­ar­ríki ráðsins eru hvött til að fylgja m.a. for­dæmi Nor­egs og Íslands og inn­leiða að lág­marki 40% kynja­kvóta í stjórn­um og stjórn­un­ar­stöðum op­in­berra stofn­ana og stærri fyr­ir­tækja.
 
Í fram­sögu skýrslu­höf­und­ar­ins, franska þing­manns­ins Gisèle Gautier, um málið kom fram að hún hefði upp­runa­lega haft efa­semd­ir um að kynja­kvót­ar væru lík­leg­ir til að ná þeim ár­angri sem að væri stefnt. Hún hefði hins veg­ar skipt um skoðun í ljósi þess að lög­gjöf, sem sett var í Frakklandi til að auka þátt­töku kvenna í stjórn­mál­um, hefði leitt til þess að hlut­fall kvenna í öld­unga­deild franska þings­ins hefði fjór­fald­ast – úr 6% í 24%. 

Í umræðum um álykt­un­ar­til­lög­una sagði Lilja Móses­dótt­ir, formaður Íslands­deild­ar Evr­ópuráðsþings­ins, að efna­hagskrepp­an á Íslandi hefði verið ákveðið tæki­færi til að auka hlut kvenna í ábyrgðar­stöðum og ákv­arðana­töku. Samstaða hefði m.a. náðst á þingi um að inn­leiða í lög 40% kynja­kvóta í stjórn­um fyr­ir­tækja með fleiri en 50 starfs­menn á ár­inu 2013.

Hún harmaði hins veg­ar að vegna niður­skurðar á fjár­lög­um hefði jafn­framt þurft að lækka há­marks­upp­hæð fæðing­ar­or­lofs­greiðslna veru­lega sem dregið hefði úr nýt­ingu feðra á fæðing­ar­or­lofi.
 
Af hálfu Íslands­deild­ar Evr­ópuráðsþings­ins sátu fund­inn Lilja Móses­dótt­ir, Mörður Árna­son og Birk­ir Jón Jóns­son.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert