Ráðherra varar við lögbrotum vegna vörslusviptinga

Ráðuneytið fékk sent erindi frá Samtökum lánþega þar sem stjórnvöldum …
Ráðuneytið fékk sent erindi frá Samtökum lánþega þar sem stjórnvöldum er bent á að fjármögnunarleigufyrirtæki svipti umráðamenn bifreiða vörslu þeirra. mbl.is/Ómar

Innanríkisráðherra varar við lögbrotum vegna vörslusviptinga. Ráðuneytið bendir á að telji einhver sig eiga skýlausan rétt á að fá umráð eignar sem er í vörslu annars þurfi sá fyrrnefndi almennt að leita til opinbers aðila til að fá þessa heimild sína staðfesta.

Fram kemur á vef ráðuneytisins að slíkt sé unnt að gera með skjótum hætti á grundvelli laga um aðför.

Ráðuneytið segist hafa fengið sent erindi frá Samtökum lánþega þar sem stjórnvöldum er bent á að fjármögnunarleigufyrirtæki svipti umráðamenn bifreiða vörslu þeirra. Fyrirtækin byggi slíka vörslusviptingu á samningum sem dæmdir hafi verið ólögmætir. Um sé að ræða lánasamninga en ekki leigusamninga.

Samtök lánþega segja að fjármögnunarleigufyrirtækin séu þannig ekki eigendur tækjanna og þeim sé því með öllu óheimilt að ganga inn á heimili lánþega og umráðamanna bifreiðanna og taka þær úr vörslu þeirra síðarnefndu án þess að fyrir því sé skýr aðfararheimild lögum samkvæmt.

Því sé nauðsynlegt sé að stjórnvöld grípi þegar inn í og stöðvi vörslusviptingar á eignum fólks sem og starfshætti þá sem þessi fjármögnunarleigufyrirtæki  beita.

Innanríkisráðuneytið segir, að samkvæmt 78. gr. aðfararlaga sé þeim sem telji sér með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem hann telji sig eiga (kallaður gerðarbeiðandi) og geti fært sönnur á rétt sinn með skriflegum sönnunargögnum, heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að hlutur sé tekinn úr vörslu þess sem hlutinn hafi (gerðarþola) og afhentur þeim er réttinn eigi.

Dómari tekur afstöðu til þess hvort réttur gerðarbeiðanda sé svo ótvíræður að heimila megi honum umráð hlutarins.

„Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. aðfararlaga skal að jafnaði hafna aðfararbeiðni ef varhugavert verður talið að láta gerðina ná fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla. Það þýðir að leiki vafi á réttmæti kröfu gerðarbeiðanda skal hafna því að aðför fari fram. Sé slíkri aðfararbeiðni hafnað er gerðarbeiðanda óheimilt að taka eign í sína vörslu þar til leyst hefur verið úr ágreiningi aðila,“ segir innanríkisráðuneytið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert