Hinn 1. júlí næstkomandi rennur tímabundin viðbót við lög um greiðsluaðlögun út. Viðbótin felur í sér að umsækjandi um greiðsluaðlögun komist í greiðsluskjól þangað til umsókn hefur verið afgreidd og/eða samningur um greiðsluaðlögun kemst á.
Þessari heimild var bætt við í lögin á liðnu haustþingi. Í frumvarpi sem fylgdi breytingarlögunum sagði að starfsemi umboðsmanns skuldara væri ekki komin í „fullan rekstur“ og af þeim sökum gæti myndast biðtími frá því að umsókn um greiðsluaðlögun væri lögð inn þar til umsókn væri tekin fyrir og greiðslufrestur veittur. Því var gildistími ákvæðisins ákveðinn til 1. júlí 2011 og í frumvarpinu sagði jafnframt að reiknað væri með því að á þeim tímapunkti myndi biðtími eftir afgreiðslu umsókna hafa styst í það sem „eðlilegt [geti] talist“.
Það er umtalsverður tími fyrir fólk í skuldavandræðum og umsóknir halda jafnframt áfram að streyma til embættis umboðsmanns skuldara. Að jafnaði berast um 40-50 umsóknir á viku en í síðustu viku bárust um 80 umsóknir.
„Við bjuggumst alltaf við því að umsóknum myndi fjölga núna verulega eftir því sem 1. júlí nálgaðist. Við reiknuðum með því að fólk sem var að íhuga að leita sér aðstoðar myndi núna stökkva til og það er kannski ágætt að þeir sem þurfa á þessu úrræði að halda komi til okkar fyrr frekar en síðar.“
Hún segir jafnframt að nú þegar greiðsluskjólið verði ekki tryggt um leið og umsókn berist verði hægt að grípa til flýtimeðferðar umsókna sem geti tekið um tíu virka daga. „Við þurfum tíu daga til að taka fyrir umsókn í flýtimeðferð og henni verður hægt að beita í neyðartilfellum.“
Aðspurð segir hún að fulltrúar embættis umboðsmanns skuldara hafi rætt við félags- og tryggingarmálanefnd um að framlengja frestinn. Það var hins vegar ekki gert.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, segir fyrirkomulag þessara mála vera hluta af þingssamþykkt. „Ég held að staðan hafi verið metin þannig að fólk myndi sjá hvort það væri í erfiðleikum eða ekki fyrir þennan tíma. Þeir sem eru í greiðsluskjóli munu ekki missa af því, það er ekki hætt við það 1. júlí.“
Hann segir jafnframt að framtíðarfyrirkomulagið varðandi greiðsluaðlögun sé miðað við að fólk komist ekki í greiðsluskjól fyrr en eftir að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun hefur verið afgreidd. „Þingið mat það sem svo að það væri mikilvægt að átta sig á því hverjir væru í þessum vandræðum, vinna svo úr þeim pakka og málin færu svo í eðlilegan farveg í framhaldinu.“
Guðbjartur segir jafnframt að greiðsluaðlögunarferlið hjá umboðsmanni skuldara hafi gengið mun hægar en reiknað hafi verið með. „Þeir eru afar fáir sem hafa lokið samningum. Það er í raun lögfræðivinna sem fer fram hjá umsjónarmönnum. Umboðsmaður skuldara er að reyna að hraða því ferli og koma því í auknum mæli inn á borð til sín. Úrræðið hefur í sjálfu sér virkað en gengið allt of hægt.“
Um eitthundrað umsjónarmenn starfa nú að því að ná samningum fyrir fólk um greiðsluaðlögun og 32 málum er lokið.
3.039
Umsóknir sem hafa borist
um greiðsluaðlögun
1.112
Mál sem hafa verið
afgreidd
32
Mál sem hefur tekist að ljúka
með samningum