Býr við sömu skilyrði og önnur fyrirtæki

Forsvarsmenn Húsasmiðjunnar segja að frá því Framtakssjóður Íslands eignaðist fyrirtækið hafi það ekki notið neinnar fjárhagslegrar aðstoðar frá eigendum sínum. Áætlanir þess gangi út á að fyrirtækið eflist á eigin verðleikum í heilbrigðri samkeppni. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Sigurður Arnar Sigurðsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, hefur sent frá sér vegna þess sem hann segir að sé ómaklega umræðu um fyrirtækið. 

Hann segir að í fréttatilkynningu frá BYKO, sem vitnað hafi verið til í fjölmiðlum í gær um lokun einnar stærstu verslunar fyrirtækisins á höfuðborgarsvæðinu, sé fullyrt að það megi rekja til „... yfirtöku lífeyrissjóða á einu þeirra fyrirtækja sem starfrækt er á þessu sviði.“

„Er hér augljóslega átt við Húsasmiðjuna sem nú er í eigu Framtakssjóðs Íslands. Af þessu tilefni vill Húsasmiðjan koma eftirfarandi á framfæri.

  1. Húsasmiðjan hefur frá hruni íslenska bankakerfisins ráðist í gríðarlega umfangsmiklar og sársaukafullar aðgerðir til að bæta reksturinn. Rekstrarkostnaður félagsins hefur dregist saman um 35% og starfsmönnum verið fækkað um allt að 50%. Flestir núverandi starfsmenn, að meðtöldum öllum lykilstjórnendum, hafa tekið á sig launaskerðingu til þess að leggja sitt af mörkum. Þannig hafa starfsmenn og stjórnendur lagt sig fram um að hagræða á öllum sviðum og vænta þeir viðunandi afkomu með auknum hagvexti og framkvæmdum í landinu á komandi tíð.

  2. Frá því Framtakssjóður Íslands eignaðist Húsasmiðjuna hefur fyrirtækið ekki notið neinnar fjárhagslegrar aðstoðar frá eigendum sínum enda ganga áætlanir út á að fyrirtækið eflist á eigin verðleikum í heilbrigðri samkeppni. Þannig býr Húsasmiðjan við nákvæmlega sömu skilyrði og önnur fyrirtæki landsins en eins og allir vita eru mörg þeirra í gjörgæslu bankanna,“ segir Sigurður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert