Heimild til að taka út séreignarsparnað rann út í aprílbyrjun og gleymdist að framlengja frestinn. Þó var vilji fyrir því hjá öllum sem hlut áttu að máli, bæði stjórnarliði og -andstöðu á þingi, sem og lífeyrissjóðum og öðrum vörsluaðilum lífeyrissparnaðar.
„Það er mjög slysalegt að mínu mati að þetta skuli ekki hafa komist strax í gegn á vorþingi og verður að taka það strax upp á haustþingi að koma þessari breytingu á. Það er fullur vilji til þess hjá lífeyrissjóðunum að framlengja tímann til áramóta,“ segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
Ákvæði um framlengdan frest var sett inn í frumvarp fjármálaráðherra í þinginu, en efnahags- og skattanefnd bætti því við eftir 1. umræðu. Samkvæmt heimildum strandaði það frumvarp á ágreiningi á milli fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins, en hann snerist um önnur atriði þessu algerlega ótengd.
Tryggvi Þór Herbertsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd, segir það klúður að gleyma þessu atriði. „Þetta er bara í takt við annað. Þeir gleymdu olíuleitarfrumvarpinu og þeir gleymdu þessu. Þetta sýnir bara hvað það eru slæleg vinnubrögð þarna á stjórnarheimilinu,“ segir Tryggvi Þór.