Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur komist að þeirri niðurstöðu að að aðstoðarkerfi fasteignaveðlána Íbúðalánasjóðs feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð til fjármálastofnana á Íslandi.
ESA segir að kerfið sé ekki í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Niðurstaða ESA lá fyrir í dag.
Fram kemur að vegna mikilla raskana á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafi íslenskar fjármálastofnanir staðið frammi fyrir lausafjárskorti. Til að mæta þessum vanda hafi íslensk stjórnvöld meðal annars ákveðið að heimila Íbúðalánasjóði að kaupa fasteignaveðlán af fjármálastofnunum.
Segir að aðstoðarkerfi fasteignaveðlána feli í sér varanleg skipti á eignum þar sem fjármálastofnanir taki á móti skuldabréfum Íbúðalánasjóðs í skiptum fyrir fasteignaveðlán sem eru yfirfærð til sjóðsins.
Við þær aðstæður sem hafi verið á fjármálamörkuðum í kjölfar fjármálakreppunar sé ólíklegt að einkafjárfestir hefði tekið þátt í sambærilegum eignaskiptum.
Niðurstaða ESA sé því sú að aðstoðarkerfi fasteignaveðlána gæti þar af leiðandi falið í sér ríkisaðstoð til fjármálastofnana. Að auki fellur aðstoðarkerfið ekki að leiðbeinandi reglum um ríkisaðstoð í tengslum við virðisrýrðar eignir, sem stofnunin innleiddi í kjölfar fjármálahrunsins.
„Vegna þessa fer ESA fram á að íslensk yfirvöld leggi niður aðstoðarkerfi fasteignaveðlána án tafar og geri nauðsynlegar ráðstafanir til að endurheimta ósamrýmanlega aðstoð eigi síðar en í lok október 2011.
Einstaka styrkir sem hafa verið veittir vegna aðstoðarkerfisins geta
hinsvegar samræmst áskilnaði EES samningsins uppfyllt þeir skilyrði sem
sett eru í leiðbeinandi reglum í tengslum við virðisrýrðar eignir og
þurfa þar af leiðandi ekki að vera endurheimtir. Í slíkum tilvikum þurfa
íslensk stjórnvöld að leggja fram gögn sem sýna fram á að einstaka
styrkir sem veittir hafa verið samkvæmt aðstoðarkerfinu hafi verið
samrýmanlegir reglum um ríkisaðstoð,“ segir í tilkynningu frá ESA.