Tryggingastofnun segir að langflest börn frá tekjulágum heimilum sem sótt hafi um endurgjaldslausa tannlækningar hafi fengið samþykkta umsókn. Um 80% umsókna voru samþykktar eða fyrir ríflega 1000 börn.
Í tilkynningu, sem birt er á vef TR, segir að lokið hafi verið við að afgreiða allar umsóknir sem hafi borist um endurgjaldslausar tannlækningar fyrir börn frá tekjulágum heimilum.
Umsóknir komu frá 645 umsækjendum sem sóttu um fyrir 1.335 börn frá öllu landinu. Meðalaldur barnanna sem sótt var um fyrir var 9 ár og elstu börnin voru 17 ára. Um 80% umsókna voru samþykktar eða fyrir ríflega 1000 börn.
Fram kemur í tilkynningu að ástæða synjunar hafi yfirleitt verið að umsækjendur voru yfir þeim tekjuviðmiðum sem sett voru.
Samþykktar umsóknir dreifðust jafnt á milli íbúa í Reykjavík og utan hennar og kynskiptingin var einnig jöfn. Langflestir þeirra sem sóttu um endurgreiðslu ferðakostnaðar fengu það samþykkt.