420 umsóknir um greiðsluaðlögun

Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara
Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara mbl.is/Árni Sæberg

Júní hefur verið óvenju annasamur hjá Umboðsmanni skuldara en á  morgun rennur tímabundin viðbót við lög um greiðsluaðlögun út. Að sögn Svanborgar Sigmarsdóttur, talsmanns embættisins, bárust 115 umsóknir í gær en það sem af er mánuði hafa borist 420 umsóknir. Venjulega berast um 200 umsóknir á mánuði.

Viðbótin felur í sér að umsækjandi um greiðsluaðlögun komist í greiðsluskjól þangað til umsókn hefur verið afgreidd og/eða samningur um greiðsluaðlögun kemst á.

Þessari heimild var bætt við í lögin á liðnu haustþingi. Í frumvarpi sem fylgdi breytingarlögunum sagði að starfsemi umboðsmanns skuldara væri ekki komin í „fullan rekstur“ og af þeim sökum gæti myndast biðtími frá því að umsókn um greiðsluaðlögun væri lögð inn þar til umsókn væri tekin fyrir og greiðslufrestur veittur. Því var gildistími ákvæðisins ákveðinn til 1. júlí 2011 og í frumvarpinu sagði jafnframt að reiknað væri með því að á þeim tímapunkti myndi biðtími eftir afgreiðslu umsókna hafa styst í það sem „eðlilegt [geti] talist“.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert