Reykjavíkurborg hefur ákveðið að lækka gjaldskrá fyrir viðbótarþjónustu vegna sorpíláta sem standa lengra en 15 metra inni á lóð. Lækkar gjaldið úr 4.800 krónum niður í 4.000 krónur á ári á hvert sorpílát miðað við losun á tíu daga fresti.
Gjaldið verður aðeins 2.000 krónur á ári ef losað er á 20 daga fresti. Þetta var samþykkt á fundi borgarráðs í dag.
Reykjavíkurborg segir að ítarlegar mælingar og innleiðing 15 metra viðbótarþjónustunnar á síðustu mánuðum hafi leitt í ljós mikið af verðmætum upplýsingum um sorphirðuna í borginni.
„Getur Reykjavíkurborg hagnýtt sér þessar upplýsingar í framtíðinni til mikillar hagræðingar í sorpþjónustunni. Breytt sorphirða mun spara borginni umtalsverða fjármuni á hverju ári. Reynt verður að hafa þjónustuna eins þægilega og sveigjanlega fyrir íbúana og mögulegt er,“ segir í tilkynningu.
Boðið er upp á tvo valkosti í sorphirðu; annars vegar losun á 10 daga fresti og hins vegar 20 daga fresti. Þeir íbúar sem velja síðari kostinn geta sparað helming í sorphirðugjöldum. Hvetur Reykjavíkurborg alla notendur sorpþjónustunnar til að kynna sér vel alla valkosti varðandi sorphirðu og flokkun sorps í þeim tilgangi að spara heimilunum og borginni mikið fé,“ segir ennfremur.