Haukur Þór Haraldsson, fyrrum framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbanka Íslands, var í dag fundinn sekur um fjárdrátt í Héraðsdómi Reykjavíkur og dæmdur í tveggja ára fangelsi. Hann hafði áður verið sýknaður í héraði en Hæstiréttur Íslands ómerkti þá niðurstöðu og sendi málið aftur til héraðsdóms til efnislegrar meðferðar.
Haukur var ákærður fyrir að hafa þann 8. október 2008 í kjölfar bankahrunsins millifært 118 milljónir af reikningi félagsins NBI Holdings Ltd. inn á hans eigin reikning. Haukur stýrði félaginu sem var sjálfeignarsjóður á bresku Ermasundseyjunni Guernsey á vegum Landsbankans.
Skýring Hauks á framgöngu sinni var sú að hann hafi viljað bjarga umræddu fé frá því að verða eins og hver önnur krafa í þrotabú Landsbankans þegar það yrði tekið til skipta.
Haukur var sem fyrr segir dæmdur í tveggja ára fangelsi óskilorðsbundið og ennfremur til þess að greiða málsvarnarlaun verjanda síns Gests Jónssonar að upphæð rúmlega 4,5 milljón króna.