Umhverfisnefnd Norðurlandaráðs hefur krafist þess að matvælaráðherrar Norðurlandaþjóðanna taki afstöðu til makríldeilunnar á fundi sínum í Finnlandi 7.-8. júlí næstkomandi.
Hingað til hafa þjóðirnar ekki getað komist að samkomulagi um skiptingu makrílkvótans fyrir árið 2011 og hafa ráðgert veiðar sem eru 50% umfram þann kvóta sem Alþjóðahafrannsóknarráðið mælir með.
„Sem norrænir þingmenn getum við ekki bara horft aðgerðarlausir á að stjórnvöld leyfi sóun á verðmætum náttúruauðlindum. Þessa vegna viljum við hvetja deiluaðila til að hefja viðræður á ný og ekki síst biðja ráðherrana að tryggja sjálfbærar fiskveiðar á okkar norrænu hafsvæðum,“segir Øyvind Halleraker sem situr í umhverfisnefnd Norðurlandaráðs.
Norðurlandaráð hefur einnig hvatt til þess að sameiginlegar rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á fiskveiðar verði efldar þannig að hægt verði að taka ákvarðanir um framtíðarsamninga um kvóta og fiskveiðistefnu.