„Ég fagna þessari skýrslu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, um nýja skýrslu Ríkisendurskoðunar um greiðslur ráðuneyta til starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.
Að beiðni Guðlaugs óskaði forsætisnefnd Alþingis, með bréfi dagsettu 21. desember 2010, eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um kostnað ráðuneyta við aðkeypta þjónustu, ráðgjöf og sérverkefni þáverandi starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands á tímabilinu maí 2007 til nóvember 2010. Tilefnið var að þingmaðurinn taldi svar forsætisráðherra við fyrirspurn hans um sama efni hafa verið rangt
Í skýrslunni eru vinnubrögð forsætisráðuneytis við vinnslu svarsins til Guðlaugs harðlega gagnrýnd.
„Þessi skýrsla sýnir mikilvægi þess að Alþingi veiti framkvæmdavaldinu aðhald. Í skýrslunni er að finna mjög alvarlegar aðfinnslur við störf forsætisráðherra. Þetta er áfellisdómur yfir vinnubrögðum hennar og það er alveg ljóst að hún ber ábyrgð á þessu máli; á því að þingið fékk ekki réttar upplýsingar. Og það er mjög alvarlegt að forsætisráðherra veiti þinginu ekki réttar umbeðnar upplýsingar,“ segir Guðlaugur og bætir við að hann muni fylgja ábendingum Ríkisendurskoðunar eftir þegar Alþingi kemur saman á ný.