Undrast afstöðu ESA

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson mbl.is/Ómar Óskarsson

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) segir takmarkanir á rétti farandlaunþega til atvinnuleysisbóta hér á landi ólögmætar og að breyta þurfi íslenskri löggjöf. Velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, undrast afstöðu ESA í málinu. 

ESA sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem segir að bæði Ísland og Noregur verði að breyta lagaákvæðum um rétt farandlaunþega til atvinnuleysisbóta. Ekki megi „setja það sem skilyrði að farandlaunþegi starfi í tiltekinn tíma á vinnumarkaði í ríkinu til að tryggingatímabil í öðrum EES-ríkjum verði tekið til greina við ákvörðun um rétt til atvinnuleysisbóta“ eins og segir í tilkynningunni.

Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar var til ársins 2010 gerð krafa um að fólk sem kom hingað til starfa frá öðrum EES-ríkjum þyrfti að hafa verið virkt á hérlendum vinnumarkaði í þrjá mánuði áður en það öðlaðist rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði. ESA gerði athugasemd við þetta ákvæði laganna og sagði hana stríða gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Vegna athugasemda ESA var lögum um atvinnuleysistryggingar breytt í fyrra. Í stað þriggja mánaða var kveðið á um að þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefði starfað á hérlendum vinnumarkaði í einn mánuð væri heimilt að leggja saman starfstímabil hans hér á landi og í öðru ríki EES og öðlaðist hann þá rétt til atvinnuleysisbóta í samræmi við það, að því er segir á vef velferðarráðuneytisins.

Með þessu var álitið að athugasemdum ESA hefði verið mætt. Krafa um atvinnuþátttöku í einn mánuð þótti hæfileg til að ganga úr skugga um að viðkomandi hefði verið virkur þátttakandi á innlendum vinnumarkaði og að greitt hefði verið tryggingagjald af tekjum hans til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Skilyrðinu var einnig ætlað að koma í veg fyrir að farandlaunþegar réðu sig til starfa í stuttan tíma einungis í því augnamiði að tryggja sér rétt til atvinnuleysisbóta hér á landi.

Í Noregi hefur gilt sambærileg regla og hér á landi nema þar er gerð krafa um fullt starf viðkomandi í Noregi í tvo mánuði áður en hann verður atvinnulaus. Ísland og Noregur hafa kynnt fyrir ESA að þetta skilyrði sé til þess að verjast bótasvikum en á það fellst stofnunin ekki og segir að samkvæmt ákvæðum EES-réttar þurfi að takast á við hugsanleg bótasvik í hverju máli fyrir sig.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra undrast afstöðu ESA í þessu máli. Þegar fólk komi hingað til lands gagngert til þess að vinna sé óeðlilegt að einn dagur í starfi eða jafnvel minna nægi því til þess að flytja áunninn rétt sinn hingað og öðlast rétt til bóta úr íslenska atvinnuleysistryggingakerfinu. Ákvæði EES-samningsins um frjálsa för launafólks sé vissulega mikilvægt. Hins vegar verði að taka tillit til þess að velferðarkerfi aðildarríkjanna séu afar ólík og betri réttur til atvinnuleysisbóta megi ekki verða hvati fólks til þess að flytja sig milli landa, segir á vef ráðuneytisins.

„Þær breytingar sem gerðar voru á lögum um atvinnuleysistryggingar árið 2010 þóttu mér réttmætar og hélt að með þeim væri kröfum ESA mætt. Lagabreytingin var unnin í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og sjónarmið okkar hafa farið saman í þessu máli. Við munum að sjálfsögðu skoða þetta ofan í kjölinn og eins mun ég taka þetta mál upp við vinnumálaráðherra annarra Norðurlandaþjóða eins fljótt og auðið er,“ segir Guðbjartur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert