Vantar úrræði fyrir sjúklinga á Kleppi

Kleppsspítali
Kleppsspítali mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Sautján manns eru nú fastir á geðdeildinni á Kleppi þar sem önnur úrræði vantar en fólkið hefur dvalið þar í rúmt ár. Geðlæknir segir þessa löngu dvöl hafa slæm áhrif á heilsu fólksins og því fari aftur. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Ráðist var í átak á vegum félagsmálaráðuneytisins árið 2006 til að koma hópi geðfatlaðra einstaklinga sem dvalist höfðu á stofnun í lengri tíma aftur út í samfélagið. Verkefninu lauk formlega í desember í fyrra en þá höfðu 140 manns fengið búsetuúrræði, það er sérhæfðan stuðning til að stunda vinnu, menntun eða endurhæfingu og aðlagast á ný eftir að hafa dvalið á stofnunum, margir hverjir um árabil. Nú hálfu ári síðar hefur fólki sem dvalið hefur á stofnunum í lengri tíma aftur tekið að fjölga. 

Páll Matthíasson, geðlæknir og framkvæmdastjóri geðsviðs LSH, segir að hægt væri að útskrifa alla þessa 17 einstaklinga ef að þeim yrði tryggður stuðningur úti í samfélaginu. Öll slík úrræði séu hins vegar fullnýtt og því gangi það ekki. Fólkið geti ekki búið eitt en sé hins vegar mun betur statt en svo að það eigi heima á stofnun. Páll segir fólkið hafa dvalið á deildinni í rúmt ár en æskilegt væri að enginn dveldi þar lengur en í þrjá mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert