Vinnubrögð gagnrýnd harkalega

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

Ríkisendurskoðun gagnrýnir vinnubrögð forsætisráðuneytis harkalega í nýrri skýrslu um greiðslur ráðuneyta  til starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Að beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, alþingismanns, óskaði forsætisnefnd Alþingis, með bréfi dagsettu 21. desember 2010,  eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um kostnað ráðuneyta við aðkeypta þjónustu, ráðgjöf og sérverkefni þáverandi starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands á tímabilinu maí 2007 til nóvember 2010. Tilefnið var að þingmaðurinn taldi svar forsætisráðherra við fyrirspurn hans um sama efni hafa verið rangt.

Í nýju skýrslunni, sem gerð var opinber í dag, eru vinnubrögð forsætisráðuneytis við vinnslu svarsins til Guðlaugs gagnrýnd á margvíslegum forsendum.

Í fyrsta lagi segir Ríkisendurskoðun ljóst að ráðuneytin hafi haft mismunandi skilning á efni fyrirspurnarinnar og það hafi verið forsætisráðuneytis að tryggja að sá skilningur væri samræmdur. Þetta hafi helgast af því að skilningur forsætisráðuneytis á fyrirspurninni hefði ekki verið útskýrður og það hafi leitt til þess að mismunandi upplýsingar frá ráðuneytum komu fram í svari forsætisráðherra til Guðlaugs Þórs.

Í öðru lagi voru í svari forsætisráðherra til þingmannsins ekki tilgreindar greiðslur til félaga í eigu starfsmanna félagsvísindasviðs. Ríkisendurskoðun telur stærstu mistök ráðuneytisins hafa falist í því að tilgreina ekki þessar greiðslur, a.m.k. sett fyrirvara í svarinu um að það næði aðeins yfir greiðslur til einstaklinga. Umtalsverðar fjárhæðir voru greiddar á tímabilinu til félaga í eigu starfsmanna eða um 37 milljónir króna. Heildargreiðslur í svari forsætisráðherra voru hins vegar 65 milljónir, þar af 12 til Háskóla Íslands. Ríkisendurskoðun tekur jafnframt fram að miðað við orðalag fyrirspurnar Guðlaugs hefði verið eðlilegt að tilgreina þessar greiðslur.

Greiðslukerfi orkar tvímælis

Ríkisendurskoðun segir jafnframt að bæta þurfi yfirsýn ráðuneyta um aðkeypta þjónustu og segir að notkun ráðuneyta á launakerfi ríkisins til greiðslu fyrir sérfræðiþjónustu orki tvímælis. Núverandi formleysi geri það að verkum að ekki sé hægt að veita fullnægjandi upplýsingar um óreglubundnar heildargreiðslur til sérfræðinga, þar sem þeir flokkist sem launþegar í bókhaldi ráðuneyta og á grundvelli upplýsingalaga sé ekki hægt að veita upplýsingar um launagreiðslur ráðuneyta til einstakra starfsmanna.

Ríkisendurskoðun tekur fram í skýrslu sinni að hún hafi ekki ástæðu til að ætla að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt í svari forsætisráðherra. Skýringarnar liggi að hluta í mistökum forsætisráðuneytisins og að svörin hafi ekki verið nægilega samræmd. 

Í skýrslunni birtast einnig viðbrögð forsætisráðuneytis við henni og í athugasemdum ráðuneytisins er því vísað á bug að efni fyrirspurnarinnar hafi ekki verið samræmt til ráðuneyta. Jafnframt hafi það ekki verið forsætisráðuneytis að tryggja að svör yrðu samræmd heldur yrði hvert ráðuneyti að bera ábyrgð á eigin svörum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka