Brekkan þéttsetin á landsmóti

Það var skýjað en dúnalogn á Vindheimamelum nú undir kvöld.
Það var skýjað en dúnalogn á Vindheimamelum nú undir kvöld. mbl.is/Helgi Bjarnason

Nú stendur yfir ræktunarbúasýning á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði þar sem 11 íslensk ræktunarbú sýna hrossin sín.

„Þarna er allt það besta tekið fram úr hesthúsinu og þetta er rosalega flott sýning,“ segir Hilda Karen Garðarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi mótsins. „Þegar sýningunni er lokið geta áhorfendur síðan kosið það bú sem þeim leist best á í símakosningu. Þetta er bara alveg eins og í Evróvisjón!“

Dagurinn hefur verið afskaplega skemmtilegur og veðrið leikið við landsmótsgesti eins og undanfarna daga. „Það er dúnalogn, skýjað en þurrt. Það kom smá skúr í dag en það var nú bara til að rykbinda fyrir okkur. Annars var 18 stiga hiti og fólk sat bara í brekkunni á hlýrabolnum með sólbrennt nefið,“ segir Hilda. Metsala hafi verið á sólgleraugum og derhúfum á sölusvæðinu.

Fyrr í dag hlaut folinn Spuni frá Vesturkoti einkunnina 10,0 fyrir vilja og geðslag en hann var áður með einkunnina 9,5. Bætti hann með þessu eigið heimsmet. „Þetta er ungur hestur, fimm vetra, og hann á mikið inni,“ útskýrir Hilda. „Það var Þórður Þorgeirsson sem sýndi hann og dró fram allt það besta í honum. Hann reið tölt og skeið og fet við slakan taum og sýndi vel hvað hann var þjáll og meðfærilegur. Þetta var mjög skemmtileg sýning á honum.“

Áætlað er að um 6 þúsund manns séu á landsmótinu eins og stendur en fólk er enn að drífa að.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert