Bretar beittu of mikilli hörku

Meirihluti þingmanna breska þingsins er þeirrar skoðunar að ríkisstjórn Bretlands hafi beitt Ísland of mikilli hörku þegar hryðjuverkalögum var beitt í Icesave deilunni. Þetta segir bresku þingmennirnir Fabian Hamilton og Meg Munn, sem eru stödd hér á landi með þingmannanefnd allra flokka.

Hamilton segist hafa farið á fund Alistair Darling, þáverandi fjármálaráðherra, í október 2008 til að tjá honum þann hug sinn og fleiri þingmanna að beiting hryðujverkalaga væri allt of róttæk aðgerð.  „Ég er auðvitað ekki sérfræðingur, en hann er það og hann sagði að ég hefði rangt fyrir mér. En ég tel að við sem vorum á þessari skoðun höfum haft rétt fyrir okkur, því það er aldrei til góðs í sambandi þjóða, jafnvel þótt rangindi hafi verið framin, að lýsa yfir stríði. Þetta var ekki hernaðarlegt stríð, en skilaboðin voru sú að þið jafngiltuð hryðjuverkamönnum, vegna þess að við notuðum hryðjuverkalöggjöfina. Það var algjörlega rangt og meirihluta þingmanna fannst þetta rangt."

Þetta er fyrsta breska þingmannaheimsóknin til Ísland eftir bankahrunið 2008 og funda þeir meðal annars með seðlabankastjóra og utanríkismálanefnd Alþingis. Þingmennirnir segjast vilja bæta samskiptin eftir Icesave deiluna og stuðla að vináttu þjóðanna.

Þingmennirnir segjast jafnframt líta á heimsóknina sem tækifæri til að sjá hvernig Ísland vinni sig út úr kreppunni, sem síðar hafi skollið á öllum heiminum. Mikil kreppa ríki nú einnig í Bretlandi og þingmenn Verkamannaflokksins hafi miklar efasemdir um þær leiðir sem ríkisstjórnin þar í landi fari til að koma þjóðinni á réttan kjöl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert