Fréttaskýring: Nýr svipur verður settur á þingstörfin

mbl.is/Ernir

Lítið hefur farið fyrir umræðu um þær breytingar sem Alþingi gerði á lögum um þingsköp áður en kom að langþráðu sumarfríi þingmanna. Með lögunum eru þó gerðar umfangsmiklar breytingar á þingstörfunum sem setja munu svip sinn á þau þegar lögin koma til framkvæmda við upphaf næsta löggjafarþings. Ekki er hægt að komast yfir allar breytingar í stuttum texta en stikla má á stóru – og smáu.

Í fyrsta lagi má nefna að umræður utan dagskrár heyra sögunni til. Svíður það eflaust mörgum er sjá á eftir utandagskrárumræðum en að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, er sérstök ástæða fyrir brotthvarfinu. „Þessar umræður sem orðnar eru fastur liður í dagskrá þingsins, þar sem ráðherra svarar fyrirspurn og fleiri taka þátt í umræðunni, eru orðið til á öllum þingum og hafa sprottið svona upp á okkar þingi, sem umræða utan dagskrár. En utandagskrárumræða í skilgreiningunni getur ekki verið á dagskrá, og menn hafa oftsinnis kvartað yfir því og spurt hvers vegna ekki sé hægt að setja þessar umræður á dagskrá.“

Helgi segir að ekki sé hægt að setja utandagskrárumræður á dagskrá og því verður heiti þeirra breytt í „sérstakar umræður“. Þrátt fyrir nafnbreytinguna verður eðli þeirra ekki breytt. „Við viljum bara setja þær á dagskrá. Þannig að þeir sem fylgjast með dagskrá þingsins sjái það, að fyrir utan ýmis mál sem eru á dagskrá er sérstök umræða um tiltekið mál.“

Opnari fundir í nefndum

Annað sem breytist og hefur meðal annars áhrif á fjölmiðla og umfjöllun þeirra um þingstörf varðar nefndarstarfið. Helgi segir að með lögunum verði nefndarfundir þrennskonar. Í fyrsta lagi almennir vinnufundir nefndar, þar sem nefndarmenn og nefndarritari eru við vinnu. Í öðru lagi eru það gestafundir og þriðja lagi opnir fundir. Opnu fundunum er sjónvarpað í gegnum netið, og eftir atvikum í Sjónvarpinu, en það eru gestafundirnir sem breytast. „Þetta er nýjung og viðleitni til að opna þennan hluta þingstarfanna meira. Þar ákveður nefndin hvort fundurinn verði opinn fjölmiðlum eða lokaður, og meginsjónarmiðið verður að fundir þar sem hagsmunaðilar máls koma á fund verði opnir fréttamönnum.“

Með því að opna þessa tilteknu fundi fjölmiðlum er víst að það sjónarmið hagsmunaðila sem þeir viðra við þingnefndina komist á sama hátt til almennings en ekki fyrir túlkun einstakra þingmanna, en túlkun þeirra getur oft farið eftir flokkslínum.

Eftirlitshlutverkið skerpt

Tvö meginatriði eru þó í nýju lögunum. Annars vegar fækkun fastanefnda, sem gerð er til að bæta skipulag. Þingmenn verða flestir í einni nefnd og það skapar rými fyrir rýmri fundartíma, auk þess sem hægt er að kalla til fundar með stuttum fyrirvara án þess að það hafi áhrif á aðrar nefndir.

Hins vegar verður skerpt á eftirlitshlutverki þingsins, sett á upplýsingaskylda ráðherra og sett á fót stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.. Meiningin er að byggja upp þekkingu og reynslu við eftirlitsstörfin.

Staða minnihlutans styrkt

Meginmarkmið laganna var að gera þinginu betur kleift að annast þau verkefni sem því eru falin samkvæmt stjórnarskrá. Einkum þó við að veita stjórnvöldum aðhald og hafa eftirlit með starfsháttum framkvæmdavaldsins.

Meðal annars var litið til þess að styrkja stöðu minnihlutans á Alþingi, einkum með ríkari upplýsingarétti þingmanna og upplýsingaskyldu ráðherra sem miða á að meira jafnræði þingmanna í aðgangi að upplýsingum, svo og rétti allra þingflokka til formennsku í þingnefndum.

Þá átti með nýju lögunum að laga ýmis ákvæði þingskapa að þeirri þróun sem orðið hefur síðustu misseri hvað varðar störf þingsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert