Lítið hefur farið fyrir umræðu um þær breytingar sem Alþingi gerði á lögum um þingsköp áður en kom að langþráðu sumarfríi þingmanna. Með lögunum eru þó gerðar umfangsmiklar breytingar á þingstörfunum sem setja munu svip sinn á þau þegar lögin koma til framkvæmda við upphaf næsta löggjafarþings. Ekki er hægt að komast yfir allar breytingar í stuttum texta en stikla má á stóru – og smáu.
Í fyrsta lagi má nefna að umræður utan dagskrár heyra sögunni til. Svíður það eflaust mörgum er sjá á eftir utandagskrárumræðum en að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, er sérstök ástæða fyrir brotthvarfinu. „Þessar umræður sem orðnar eru fastur liður í dagskrá þingsins, þar sem ráðherra svarar fyrirspurn og fleiri taka þátt í umræðunni, eru orðið til á öllum þingum og hafa sprottið svona upp á okkar þingi, sem umræða utan dagskrár. En utandagskrárumræða í skilgreiningunni getur ekki verið á dagskrá, og menn hafa oftsinnis kvartað yfir því og spurt hvers vegna ekki sé hægt að setja þessar umræður á dagskrá.“
Helgi segir að ekki sé hægt að setja utandagskrárumræður á dagskrá og því verður heiti þeirra breytt í „sérstakar umræður“. Þrátt fyrir nafnbreytinguna verður eðli þeirra ekki breytt. „Við viljum bara setja þær á dagskrá. Þannig að þeir sem fylgjast með dagskrá þingsins sjái það, að fyrir utan ýmis mál sem eru á dagskrá er sérstök umræða um tiltekið mál.“
Með því að opna þessa tilteknu fundi fjölmiðlum er víst að það sjónarmið hagsmunaðila sem þeir viðra við þingnefndina komist á sama hátt til almennings en ekki fyrir túlkun einstakra þingmanna, en túlkun þeirra getur oft farið eftir flokkslínum.
Hins vegar verður skerpt á eftirlitshlutverki þingsins, sett á upplýsingaskylda ráðherra og sett á fót stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.. Meiningin er að byggja upp þekkingu og reynslu við eftirlitsstörfin.
Meðal annars var litið til þess að styrkja stöðu minnihlutans á Alþingi, einkum með ríkari upplýsingarétti þingmanna og upplýsingaskyldu ráðherra sem miða á að meira jafnræði þingmanna í aðgangi að upplýsingum, svo og rétti allra þingflokka til formennsku í þingnefndum.
Þá átti með nýju lögunum að laga ýmis ákvæði þingskapa að þeirri þróun sem orðið hefur síðustu misseri hvað varðar störf þingsins.