Alþingismenn eiga yfir höfði sér málshöfðun brjóti þeir trúnað innan nefndarstarfs, samkvæmt nýjum lögum um þingsköp.
Í umfjöllun um nýju þingsköpin í Morgunblaðinu í dag segir, að áður hafi aðeins verið hægt að fara fram á trúnað samkvæmt lögum í utanríkismálanefnd en treyst á drengskaparloforð í öðrum. Í nýju lögunum er hins vegar þagnarskylduákvæði sem gildir fyrir allar nefndir.
Ráðherra getur lagt fyrir þingnefnd upplýsingar en krafist þagnarskyldu. „Ef þingmaður myndi brjóta hana yrði væntanlega höfðað opinbert mál á hendur honum, með leyfi þingsins,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.