Allir björguðust úr strandi

Kollafjörður
Kollafjörður Heimild: www.ferja.is

Farþegabátur með átta manns um borð strandaði við Lundey um ellefuleytið í morgun. Fólkinu var bjargað um borð í harðbotna björgunarbát Slysavarnafélagsins-Landsbjargar.

Um borð í bátnum voru þrír fullorðnir farþegar og þrjú börn og tveir í áhöfn, að sögn Kristins Ólafssonar, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar.  Báturinn strandaði klukkan rúmlega ellefu í morgun.

Björgunarsveitir frá Kópavogi, Reykjavík og Kjalarnesi komu á vettvang á þremur harðbotna björgunarbátum og einu  björgunarskipi Slysavarnafélagsins-Landsbjargar. Fyrsti báturinn var kominn á vettvang um hálftíma eftir útkall eða um klukkan 11.45. Fólkið var þá komið um borð  í gúmmíbjörgtunarbát við hlið strandaða bátsins.

Kristinn sagði að fólkið hafi verið flutt úr gúmbjörgunarbátnum í björgunarbát SL og síðan til Reykjavíkur en áhöfn farþegabátsins er enn á strandstað.

Talið var að fólkinu hafi heilsast ágætlega miðað við aðstæður. 

Farþegabáturinn er enn fastur á strandstað í Lundey og hallar talsvert. Gott veður mun vera á strandstaðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert