Bilun í stórtölvu Reiknistofu bankanna olli vinnslurofi í greiðslumiðlunarkerfinu að hluta í þrjá og hálfan tíma í nótt, að sögn Friðriks Þórs Snorrasonar, forstjóra.
„Strax var hafist handa við að leita að orsökinni og kom í ljós að bilun í gagnagrunni olli þessu,“ sagði Friðrik. „Við erum búin að koma í veg fyrir vandann og erum að skoða frekari fyrirbyggjandi aðgerðir.“
Bilunin varð klukkan 22.37 í gærkvöldi og var búið að laga hana klukkan 02.15 í nótt. Bilunin olli því að síhringikort og dælulyklar náðu ekki sambandi við greiðslukerfið. Sama gilti um hraðbanka og heimabanka.
Debitkort og kreditkort, sem fara í gegnum kassakerfi og posa, virkuðu vegna varakerfis fyrir heimldarfærslur sem er í posakerfinu. Friðrik sagði að um 75% af heimildafærslum sem óskað var eftir meðan kerfið lá niðri hafi því komist í gegn.
„Við hörmum mjög þau óþægindi sem viðskiptavinir fjármálastofnana urðu fyrir vegna rekstraróhappsins,“ sagði Friðrik. Fjármálastofnanir fengu reglulegar upplýsingar um stöðuna meðan á biluninni stóð og munu fá nákvæma rekstrarskýrslu um atvikið.