Bilun varð á greiðslukerfum Reiknistofu bankanna í gærkvöldi. Ekki var hægt að borga með korti á fjölmörgum stöðum um allt land. Ýmsir lentu í vandræðum vegna þessa en samkvæmt heimildum mbl.is var til dæmis ekki hægt að nota hraðbanka né heimabanka og urðu margir fyrir óþægindum vegna þessa.
Einn viðmælenda mbl.is sagðist ekki hafa getað keypt bensín á leið sinni norðan úr Skagafirði til Reykjavíkur. Hann hafði verið í Staðaskála um klukkan 22:30 og þar virkuðu engir kortasjálfsalar.
Þá hafi hann tekið stefnuna í Borgarnes en þar virkuðu heldur engir kortasjálfsalar, hvorki á N1 né hjá Skeljungi. Þá lá leiðin, á síðustu dropunum, til Reykjavíkur. Þar gat hann heldur ekki keypt bensín með orkulykli hjá Orkunni.
Á öllum stöðum var fólk í sama vanda. Hann furðaði sig á upplýsingaskorti en hvergi kom fram hvers vegna kortin virkuðu ekki.
Bilunin stóð til að verða þrjú í nótt, samkvæmt heimildum mbl.is. Reiknistofa bankanna hefur ekki tilkynnt um hvað olli biluninni en mun hafa tilkynnt fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við hana að gerð verði grein fyrir biluninni á mánudaginn.