Komust ekki úr bílastæðakjallaranum

Um 20 manns komust ekki út úr bílastæðakjallara á Stjörnubíóreitnum …
Um 20 manns komust ekki út úr bílastæðakjallara á Stjörnubíóreitnum í dag. mbl.is/Ktistinn

Tuttugu manns lokuðust inni í bílastæðakjallara á Stjörnubíóreitnum í um einn og hálfan klukkutíma í dag. Erfiðlega gekk að ná sambandi við bílastæðasjóð, sem sér um bílastæðakjallarann, en um klukkutími leið þar til starfsmaður frá borginni kom á staðinn.

Atvikið átti sér stað um klukkan fjögur síðdegis. Enginn starfsmaður var í afgreiðslu bílastæðakjallarans sem er á Stjörnubíóreitnum við Laugaveg. Hlið lokaði inngangi kjallarans svo ekki var hægt að aka bílum út, notendum til mikils óhagræðis. Fólkið komst þó út fótgangandi en bíllaust.

Samkvæmt viðmælanda mbl.is, sem sat fastur í kjallaranum í dag, var upplýsingum afar ábótavant. Fólkið hafði ýtt á neyðarhnapp sem aðeins gaf samband við aðalsímanúmer Reykjavíkurborgar. Þá hafi langur símsvari tekið við áður en samband fékkst við bílastæðasjóð. Þar tók annar símsvari við sem fólkinu var bent á að hafa samband við 112 ef það væri í vanda.  Einn og hálfur klukkutími leið þar til einhver kom sem gat opnað hliðið.

Ástæðan var bilun í neyðarsíma

Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs, segir atvikið einsdæmi og henni þyki þetta afar leiðinlegt. Ástæðuna megi rekja til bilunar í síma sem sendi boð til starfsmanna á bakvakt. Þeir hafi því ekki fengið neyðarboðið.

„Nú verður keyptur nýr sími þegar í stað og hann settur upp strax á mánudaginn,“ segir Kolbrún. Þangað til munu starfsmenn hafa sérstakar gætur á bílakjallaranum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert