Gæsluvarðhald og geðrannsókn

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is

Lögreglustjórinn á höfðuðborgarsvæðinu lagði nú í dag fram kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um gæsluvarðhald og rannsókn á geðheilbrigði 21 árs gamallar konu, samkvæmt tilkynningu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Konan er talin hafa fætt barn í gær sem fannst látið í ruslagámi við vinnustað hennar eftir miðjan dag í gær.  Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfuna um gæsluvarðhald til tveggja vikna og jafnframt var konunni gert að gangast undir rannsókn á geðheilbrigði.

Rannsókn málsins bendir m.a. til þess að konan hafi leynt þungun sinni  fyrir umhverfi sínu og öllum þeim sem umgengust hana.  Aðrir eru ekki í haldi lögreglu í þágu rannsóknar málsins. 

Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri, sagði að unnusta konunnar, sem var í haldi vegna málsins, hafi verið sleppt fyrr í dag. Hann vildi ekki gefa upplýsingar um hvar konan starfaði, umfram það sem sagði í tilkynningu í gær - að hún hafi starfað á hóteli í Reykjavík.

Það að taka líf annarrar manneskju er manndráp og fellur undir 211. grein almennra hegningarlaga. Refsing við því er allt að ævilangt fangelsi en ekki skemmri fangelsisdómur en í fimm ár.

212 greinin fjallar um það ef móðir deyðir nýbura. Þar segir:

“Ef móðir deyðir barn sitt í fæðingunni eða undir eins og það er fætt, og ætla má, að hún hafi gert það vegna neyðar, ótta um hneisu eða sökum veiklaðs eða ruglaðs hugarástands, sem hún hefur komist í við fæðinguna, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.“

Barnslík í ruslagámi

Lögreglan sendi út eftirfarandi tilkynningu laust fyrir miðnætti í gær:

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú voveifilegt lát barns. Lík þess fannst í ruslagámi við hótel í Reykjavík þar sem kona, sem talin er hafa fætt það, vinnur.

Í morgun var komið með konu á bráðamóttöku Landsspítalans vegna blæðinga og kviðverkja.  Þrátt fyrir að konan kannaðist ekki við að hafa verið ófrísk,  töldu læknar að hún hefði misst fóstur og verkir og blæðing stöfuðu af því.  Við nánari skoðun voru læknar þess fullvissir að hún hefði fætt barn þá skömmu áður eða á síðasta sólarhring. 

Lögreglu var þá þegar gert viðvart og hófst strax rannsókn og eftirgrennslan eftir barninu.  Skömmu síðar fann lögregla nýfætt barn í ruslagámi við hótelið þar sem konan vinnur, en vitað var að hún hefði verið þar í morgun.  Barnið var látið þegar það fannst en talið er að það hafi fæðst lifandi.

Konan er í gæslu lögreglu á sjúkrahúsi.  Unnusti konunar er í haldi lögreglu.  Fjöldi lögreglumanna hefur komið að málinu í dag og standa yfirheyrslur yfir.“
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert