„Þetta er pólitískur farsi“

Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segir Landsdómsmálið farsa í viðtali við …
Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segir Landsdómsmálið farsa í viðtali við frönsku fréttaveituna AFP. mbl.is/RAX

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, lýsir landsdómsmálinu sem farsa í viðtali við blaðamanninn Ninu Larson á AFP fréttaveitunni. Hann segir ríkisstjórn sína hafa bjargað Íslandi frá sömu örlögum og Grikkland stendur nú frammi fyrir. 

„Við björguðum landinu frá gjaldþroti,“ segir Geir í viðtalinu. Hefði ríkisstjórnin brugðist öðruvísi við bankahruninu hefði fallið verið mun hærra. 

Hann segir augljóst að viðbrögð Íslands hafi verið mun betri en til dæmis Grikklands og Írlands. Ísland hafi ekki ábyrgst erlendar skuldir bankakerfisins líkt og þau lönd hafi gert.

AFP segir frá því að Geir sé eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem hafi verið ákærður í kjölfar bankahrunsins. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi auk hárra fjársekta. 

„Ég er feginn að standa einn í þessu því ég er feginn að fyrrum samstarfsfólk mitt þarf ekki að þola þetta ástand,“ segir Geir. Réttarhöldin séu pólitískur farsi og drifin áfram af pólitískum óvinum hans undir því yfirskini að um sakamál sé að ræða.

Í frétt AFP um málið er haft eftir Steingrími J. Sigfússyni að það hafi verið óheppilegt að aðrir meðlimir ríkisstjórnar Geirs H. Haarde hafi ekki verið ákærðir. Steingrímur segir málið hvorki persónulegt né pólitískt. Enginn haldi því fram að Geir hafi getað komið í veg fyrir bankahrunið. Hins vegar hafi hann getað brugðist betur við til að draga úr áhrifum þess. 

Í viðtalinu segist Geir vonast til að málinu verði vísað frá. Kröfu þess efnis hafi tvisvar verið hafnað en hann sé vongóður á að fallist verði á næstu frávísunarkröfu. 

„Bankahrun varð víða um allan heim. En af hverju var enginn annar stjórnmálaleiðtogi dreginn fyrir dóm,“ spyr Geir í viðtalinu. 

„Svarið er að engum hefur svo mikið sem dottið slíkt í hug því bankahrunið var ekki verk einstakra pólitískra leiðtoga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert