Alltaf talað fyrir sérlausnum

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Mariu Damanaki, yfirmanni sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn …
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Mariu Damanaki, yfirmanni sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. mbl.is/ESB

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir það á „fullkomnum misskilningi byggt,“ telji einhver að í ummælum sem hann lét falla í viðtali við fréttastofu Euronews felist nýnæmi. Þar sagðist hann ekki telja að Íslendingar þyrftu sérstakar undanþágur vegna sjávarútvegsmála í samningaviðræðum við Evrópusambandið.

Þingmenn stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka furðuðu sig á ummælum Össurar, líkt og greint var frá í frétt Morgunblaðsins.

Hann leggur á það áherslu að hann hafi alltaf gert greinarmun á sérlausnum og varanlegum undanþágum. Hann hafi frá upphafi talað fyrir því að Íslendingar leituðu eftir sérlausn hvað sjávarútvegsstefnu varðaði, og meðal annars vísað til sérlausnar Finna varðandi norðlægan landbúnað.

Össur segir fiskveiðistefnu ESB í grunninn byggða á sameiginlegri nýtingu sameiginlegra stofna innan sameiginlegrar lögsögu. Íslendingar séu hins vegar í þeirri stöðu að deila ekki lögsögu sinni með neinum.

„Langmest af okkar stofnum eru ekki sameiginlegir og það er engri sögulegri sameiginlegri nýtingu til að dreifa sem máli skiptir. Það eru 35 ár frá því að hægt var að segja að einhverjir aðrir, sem nú eru innan ESB, hafi veiðireynslu innan okkar lögsögu.“ Í því ljósi telur hann hægt að leggja fram rökstudda tillögu um sérlausnir fyrir Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert