Fréttaskýring: Íhuga að biðja um úttekt

Á Landspítalanum.
Á Landspítalanum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Læknaráð Landspítalans íhugar nú alvarlega að óska eftir því við Guðbjart Hannesson velferðarráðherra, að hann láti gera úttekt á starfsemi spítalans, m.a. með tilliti til mönnunar og álags.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA), sem birt var í júní, var gerð að beiðni Guðbjarts eftir að hann fékk bón um það frá læknaráði FSA. Niðurstöður skýrslunnar sýndu meðal annars að álag væri of mikið og að öryggi sjúklinga væri ógnað af þeim völdum. Sagði í skýrslunni að brýnt væri að landlæknisembættið gerði úttekt á öryggi sjúklinga þar.

Tekið fyrir á næsta fundi

„Við komum til með að ræða þessi mál sérstaklega á næsta fundi. Ný stjórn tók við í maí og þetta hefur verið helsta málið hjá okkur síðan þá. Við munum halda þeirri umræðu áfram,“ segir Anna Gunnarsdóttir, formaður læknaráðs. Ráðið hefur ekki fundað frá því að skýrslan um FSA kom út. Síðan þá hefur skapast mikil umræða um læknaskort og undirmönnun í heilbrigðiskerfinu. Viðmælendur segja ekki minni þörf á skýrslu um stöðuna á Landspítalanum en á FSA.

„Við munum taka það til mjög alvarlegrar skoðunar og umræðu og ákveða í kjölfarið hvort við viljum fara sömu leið,“ segir Anna.

Læknaráð LSH lýsti á síðasta aðalfundi sínum áhyggjum af starfsálagi og læknaskorti. Í vor fór læknaráð svo fram á að teknar yrðu saman tölur yfir fjölda starfandi lækna á LSH og það hvernig mönnun deilda hefur þróast. Einnig að gerð yrði úttekt innan spítalans á yfirvinnu lækna. Yfirvinnan er ekki borguð nema að hluta til og segir Anna talsverða sjálfboðavinnu því í gangi á LSH, sem sé í raun dulinn læknaskortur.

Nýútskrifaðir vilja vinna á FSA

Læknar sem blaðamaður hefur rætt við segja að álag hafi aukist mikið á LSH undanfarið ár. Til marks um það má nefna að á síðasta ári setti enginn nýútskrifaður læknir FSA sem sitt fyrsta val í starfsumsókn, heldur flestallir LSH. Í ár settu hins vegar átta úr útskriftarárgangnum FSA sem fyrsta val, sem er mesti fjöldi sem sótt hefur um þar í nokkur ár.

Segja má að það skjóti dálítið skökku við í ljósi skýrslunnar um hið bága ástand mönnunar þar og hið mikla álag á starfsfólki.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir yfirlæknir, sem haft hefur umsjón með umsóknum læknakandídata, staðfestir þessar tölur en segir hluta af þessu skýrast af breytingum á umsóknarferlinu við Landspítalann, sem hafi nú verið gert formlegra en áður.

Starfsálag og undirmönnun á Landspítalanum

Að sögn Eyjólfs Þorkelssonar, formanns Félags almennra lækna, leikur enginn vafi á því að starfsálagið á LSH fælir umsækjendur annað. „Síðastliðinn vetur var mjög erfiður fyrir okkar félagsmenn. Kandídatar og almennir læknar hafa lítið getað sótt kennslu og verið hefur mikið álag og viðvarandi undirmönnun, sem meðal annars kom í ljós í starfsánægjukönnun LSH sem birt var um áramótin,“ segir Eyjólfur.

Læknar á Íslandi séu ekki svo fjölmennur hópur, þannig að upplýsingar og fréttir um álag og mönnun á deildum berist fljótt á milli fólks. „Það hefur bara spurst út til þeirra sem eru að útskrifast núna. Fleiri en einn og fleiri en tveir af þeim sem eru að fara á Landspítalann núna hafa komið að máli við mig og sagt að þeir hefðu viljað fara annað, en að félagslegar aðstæður hefðu hindrað þá í því,“ segir Eyjólfur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka