Þrjár líkamsárásir voru kærðar til lögreglunnar í Vestmannaeyjum eftir skemmtanahald helgarinnar. Var meðal annars ráðist tvívegis á sama manninn.
Fyrst var ráðist á manninn inni á veitingastaðnum Prófastinum og var þar að verki maður með trékylfu. Sá sem fyrir árásinni varð fékk skurð á augabrún. Hann leitaði sér aðstoðar í eldhúsi skemmtistaðarins og þar var ráðist á hann aftur. Var þar að verki vinur þess, sem beitti trékylfunni og mun sá m.a. hafa sparkað í andlit og skrokk mannsins.
Maðurinn leitaði sér aðstoðar á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja þar sem gert var að sárum hans.
Þriðja árásin átti sér stað fyrir utan veitingastaðinn Volcano en þarna voru tveir menn að gera upp óuppgerðar sakir við hvorn annan frá því í vetur. Ekki er talið að mennirnir hafi meiðst alvarlega.
Aðfaranótt laugardags var óskað eftir aðstoð lögreglu um borð í skipi en þar hafði einn skipverjanna orðið ölóður. Tók hann m.a. exi og olli nokkrum skemmdum með henni, auk þess sem hann ógnaði öðrum skipverjum með henni án þess þó að einhver hafi meiðst.
Sömu nótt var maður hendtekinn sem hafði verið að ógna manni með hnífi fyrir utan veitingastaðinn Prófastinn. Hann dró hnífinn upp því honum fannst sér vera ógnað. Engin meiðsl urðu af þessu athæfi mannsins.
Brotist var inn í verslunina Kjarval aðfaranótt föstudags og voru þrjú ungmenni handtekin í kjölfarið. Gáfu þau þá skýringu á innbrotinu að hungur hafi sagt til sín hjá þeim og var því ákveðið að brjótast þarna inn til að útvega sér eitthvað að borða.
Lögreglan stöðvaði einnig mann grunaðan um ölvun við akstur um helgina og kom í ljós að hann hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Lögreglumenn þurftu að hlaupa ökumanninn uppi en eftirförin varð. Ökumaðurinn var í slagtogi með þeim sem brutust inn í Kjarval og eins þeim sem réðst á mann með trékylfu um helgina.